Lífið

Þú fullkomnar mig og Ást vinsælust

Fólk sem í sumar ætlar að játast hvort öðru frammi fyrir Guði og mönnum er nú í óðaönn að undirbúa athöfn og veisluhöld þótt enn sé mars. Að mörgu þarf að hyggja enda stundin stór í lífi fólks. Margir eiga í mesta basli við að velja lögin sem flytja á í athöfninni því óteljandi falleg lög hafa verið samin og flutt í gegnum árin. Samkvæmt athugun Fréttablaðsins verða dægurlögin Ást og Þú fullkomnar mig mest leiknu lögin í brúðkaupum sumarsins en bæði þykja undurfögur og innileg og margir elskendur hafa gert þau að "sínum" eins og sagt er. Ragnheiður Gröndal söng Ást inn á plötu árið 2003 en lagið er eftir Magnús Þór Sigmundsson við ljóð Jóns Nordal. Guðmundur Jónsson samdi Þú fullkomnar mig og Stefán Hilmarsson textann. Lagið kom út árið 2002 og er í kvikmyndinni Maður eins og ég. Sumir prestar hafa lengi haft horn í síðu dægurlaga í brúðkaupum og vilja að einungis sálmar og kirkjuleg tónlist sé flutt í athöfnum. Engu að síður hefur dægurlögunum vaxið ásmegin með árunum og vanalega flutt að minnsta kosti eitt slíkt í hverju brúðkaupi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.