Innlent

Nauðaflutningar vegna uppsagna

Allt upp undir tíu fjölskyldur munu flytja frá Bolungarvík fyrir árslok 2007 vegna fækkunar starfsmanna ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli.  Ellefu starfsmenn hafa undanfarið ár starfað við ratsjárstöðina á Bolafjalli. Starfsmennirnir búa allir í Bolungarvík og eru mestmegnis fjölskyldufólk. Þremur þessara starfsmanna hefur verið sagt upp störfum frá 1. október næstkomandi og einn starfsmaður hefur verið færður til í starfi. Sjö starfsmenn munu starfa á ratsjárstöðinni á Bolafjalli eftir uppsagnirnar, alla vega fram til haustsins 2007. Frá þeim tíma verður starfsemi þriggja af fjórum ratsjárstöðvum ratsjárstofnunar stýrt frá Miðnesheiði og er búist við að starfsmenn stöðvarinnar á Bolafjalli verði einungis tveir. Það er þungt hljóðið í Einari Péturssyni, bæjarstjóranum í Bolungarvík. Hann segir að fyrir utan áfallið sem þetta er fyrir umrætt starfsfólk, þá sé þetta gríðarleg blóðtaka fyrir bæjarfélagið, enda hafi starfsemi ratsjárstöðvarinnar haldið uppi um 5% af útsvarstekjum bæjarins. Aðspurður hvort eitthvað sé í spilunum um að annað komi í staðinn segir Einar svo ekki vera. „Ég velti upp þeirri hugmynd strax í byrjun að þessum stöðvum yrði fjarstýrt héðan að vestan í staðinn frá Miðnesheiði, en svörin við því voru að það væri alveg klárt að Ameríkaninn vilji að þessu sé stýrt frá Miðnesheiði þar sem önnur starfsemi þeirra er,“ segir Einar. En Bolvíkingar eru reiðubúnir að taka við annarri starfsemi í staðinn að sögn bæjarstjórans. Magnús Baldvin Einarsson, einn starfsmanna ratsjárstöðvarinnar sem sagt var upp, segir að eina atvinnan fyrir hann sé í útlöndum. Hann reiknar því með að fara af landi brott fljótlega. „Ég er búinn að vinna hérna frá því ég kom út úr skóla, eða í 18 ár, og kann í rauninni ekkert annað,“ segir Magnús. Aðspurður hvort honum finnist erfitt að þurfa að flytja frá Bolungarvík segir hann svo ekki vera. „Ég fer bara þangað sem ég get fengið vinnu,“ segir Magnús.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×