Innlent

Fjölmiðlanefnd: Sögulegar sættir

Sögulegar sættir gætu náðst milli stjórnar og stjórnarandstöðu um áhersluatriði laga um eignarhald á fjölmiðlum. Fjölmiðlanefndin svokallaða er að ljúka störfum og útlit er fyrir samstöðu um að einstaklingar og fyrirtæki megi eiga stærri eignarhlut en gert var ráð fyrir í öllum útgáfum fjölmiðlafrumvarpsins. Vinna fjölmiðlanefndarinnar er á viðkvæmu stigi og lokaniðurstaða liggur ekki fyrir. Nefndarmenn eru að kanna sitt bakland í flokkunum þessa dagana. Enn er deilt um eignarhald á fjölmiðlum, sjálfstæði ritstjórna og stöðu Ríkisútvarpsins á markaði. Útlit er þó fyrir að sögulegar sættir geti náðst milli stjórnar og stjórnarandstöðu samkvæmt heimildum Stöðvar 2. Samkvæmt heimildum fréttastofu er verið að ræða stærri eignarhlut, sem fyrirtæki og einstaklingar megi eiga í fjölmiðlafyrirtækjum, en var uppi á teningnum í síðustu útgáfu fjölmiðlafrumvarpsins. Ekki er lengur inni í myndinni að eigendur prentmiðla megi ekki eiga í ljósvakamiðlum, og öfugt, enda þykja tækniframfarir gera það ógerlegt. Þá er sérstakur kafli í skýrslu nefndarinnar um Ríkisútvarpið þótt nefndinni hafi ekki verið falið að gera beinar tillögur um það.. Þá hefur nefndin skoðað sérstaklega stafrænt sjónvarp og gagnvirkt og aðrar tækniframfarir sem hafa orðið í fjölmiðlum. Þar er bylting handan við hornið. Samkvæmt heimildum fréttastofu telja flestir nefndarmenn að það geti verið óhagkvæmt fyrir neytendur að fyrirtæki séu að reka mörg dreifikerfi. Það sé þó ekkert val í þeim efnum þar sem sú þróun sé þegar hafin. Tryggja þurfi hins vegar jafnan aðgang að dreifikerfum með sem minnstum tilkostnaði. Menntamálaráðherra frestaði, að beiðni nefndarmanna sem sitja á þingi, umræðu um Ríkisútvarpið sem vera átti á morgun, þar til fjölmiðlanefndin hefur lokið störfum. Forseti Alþingis hafði áður hafnað þesssari beiðni en nefndarmenn sem sitja á þingi vildu komast hjá því að ræða efnisatriði frumvarpsins meðan tillögur nefndarinnar lægju ekki fyrir. Vonast er til að skýrslan í heild geti legið fyrir eftir páska. Ekki verður tekin sértstök afstaða til eignarhalds símafyrirtækjanna í fjölmiðlum þar sem Samkeppnisstofnun hefur enn ekki kveðið upp úrskurð um þau mál.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×