Sport

Tyson ætlar aftur í hringinn

Hnefaleikagoðsögnin Mike Tyson hefur lýst því yfir að hann muni snúa aftur í hringinn í sumar en óljóst er hver keppinauturinn verður, ef hann verður þá nokkur. Tyson hefur ekki barist síðan hann tapaði á frekar niðurlægjandi hátt á rothöggi gegn breska boxaranum Danny Williams síðasta sumar. Tyson sem er orðinn 38 ára hefur skuldbundið sig með samningi við sjónvarpsstöð um að berjast ákveðinn fjölda bardaga enda á hann ekki túkall með gati. "Ég er á leiðinni í hringinn aftur. Það mun verða í Washington, trúlega þann 20. júní." sagði Tyson við bandaríska fjölmiðla í gær. Ástralska útlendingaeftirlitið gerði nýlega lítið úr vonum Tyson um að upphefja feril sinn að nýju þegar innflytjendaráðherra þar í landi sagði í viðtali við útvarpsstöð að ólíklegt væri að hann fengi að koma inn í landið vegna sakaferils síns. Hann var sem kunnugt er dæmdur til fangelsisvistar árið 1992 vegna nauðgunar auk þess sem hann eftirminnilega beit úr eyra Evander Holyfield þegar þeir áttust við í hringnum árið 1997.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×