Sport

Heimboð frá Ítölum

Forysta Knattspyrnusambands Íslands hefur ákveðið að þekkjast boð ítalska knattspyrnusambandsins um að spila vináttuleik á Ítalíu 30. mars næstkomandi. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í gær en þar sagði Eggert Magnússon, formaður KSÍ, að boðið hefði borið brátt að og lítill tími hefði gefist til umhugsunar. "Þetta boð var einfaldlega þannig að það var ekki hægt að hafna því enda ekki á hverjum degi sem það gefst tækifæri til að spila leik við jafn sterka þjóð og Ítalíu," sagði Eggert. Eins og flestir muna báru Íslendingar sigurorð af Ítölum, 2-0, fyrir framan rúmlega tuttugu þúsund áhorfendur á Laugardalsvelli 18. ágúst á síðasta ári þar sem Gylfi Einarsson og Eiður Smári Guðjohnsen skoruðu mörk íslenska liðsins. Ítalir hafa því harma að hefna og má búast við því að þeir verði með sitt sterkasta lið og rúmlega það til að endurheimta stoltið sem tapaðist á Laugardalsvellinum á ægifögru ágústkvöldi í fyrra. Eggert sagði að það væri stefna sambandsins að spila ekki æfingaleiki nema við boðlegar aðstæður og almennileg lið. "Við höfum brennt okkur á því að spila leiki við ömulegar aðstæður og ekki með okkar sterkasta lið. Núna er það ekki raunin og því þáðum við boðið með þökkum." Ásgeir Sigurvinsson landsliðsþjálfari sagðist mjög ánægður með að fá Ítalaleikinn, jafnvel þótt hann kæmi kannski of seint. "Það hefði auðvitað verið frábært að mæta Ítölum fyrir leikinn gegn Króötum en við tökum hverju verkefni fagnandi. Við höfum skoðað ástandið á mannskapnum á undanförnum vikum og erum sáttir. Það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn," sagði Ásgeir sem hélt til Vínar í morgun þar sem hann mun fylgjast með vináttuleik Austurríkismanna og Króata ásamt Loga Ólafssyni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×