Innlent

Þjóðminjasafnið fær drykkjarhorn

Þjóðminjasafninu var í dag afhent íslenskt drykkjarhorn frá 15. öld sem keypt var í Noregi á dögunum. Menntamálaráðuneytið og Ölgerðin Egill Skallagrímsson lögðu til fé til kaupanna en hornið gengur undir nafninu Maríuhornið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar, afhentu Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði drykkjarhornið við hátíðlega athöfn en það er með elstu drykkjarhornum sem varðveist hafa og hefur mikið listrænt og sögulegt gildi. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður segir mikinn feng fyrir Þjóðminjasafnið að fá þetta horn heim eftir aldalanga fjarveru en því verður komið fyrir meðal annarra miðaldahorna safnsins. Þakkaði hún menntamálaráðherra og Ölgerðinni sérstaklega fyrir þeirra framlag við endurheimt hornsins og sagði stuðning þeirra ómetanlegan. Alls hafa varðveist tæplega fjörutíu útskorin íslensk drykkjarhorn frá miðöldum. Einungis átta þessara horna eru hér á landi og öll varðveitt í Þjóðminjasafninu. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, sagði að sér rynni blóðið til skyldunnar að aðstoða við endurheimt drykkjarhornsins. Hann tilkynnti á fundinum að Ölgerðin og Þjóðminjasafnið hefðu samið um stofnun sjóðs sem ætlað væri að standa straum af kostnaði við endurheimt fleiri drykkjarhorna en stefna safnsins er að eignast þau íslensku drykkjarhorn sem föl eru hverju sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×