Sport

Var slysið í Aþenu sviðsett?

Gríska frjálsíþróttasambandið hefur frestað úrskurði dóms yfir tveimur bestu hlaupurum landsins sem eiga yfir höfði sér langt keppnisbann fyrir að skrópa í þremur lyfjaprófum í fyrra. Frægt var á ólympíuleikunum í Aþenu í fyrrasumar þegar fréttir breiddust út þess efnis að Costas Kenteris og Katerina Thanou hefðu lent í mótórhjólaslysi sem þau eru nú sökuð um að hafa sviðsett. Ástæða frestunar dómsins er sú að enn hafa ekki borist öll sönnunargögn verjanda þeirra en þau áttu að heyra dóminn í síðasta lagi í dag. Hlaupararnir fá því úr þessu að heyra örlög sín um miðjan mars. Umrætt atvik átti sér stað sama dag og þau áttu að mæta í lyfjapróf á meðan leikarnir stóðu yfir en þau lágu á spítala í 4 daga í kjölfarið. Þau eru þar fyrir utan grunuð um að hafa skrópað af ráðnum hug í tveimur öðrum lyfjaprófum á sömu tveimur mánuðunum í fyrra og eiga hugsanlega yfir höfði sér 2 ára keppnisbann sem gæti bundið enda á feril þeirra beggja. Verjandi hlauparanna segist vongóður um að gögnin sem beðið er eftir að hann leggji fram verði til þess að umbjóðendur sínir verði sýknaðir af umræddum ásökunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×