Innlent

Endurunnið fyrir 720 milljónir

"Þetta er þremur til fjórum prósentum meira en árið á undan," segir Eiríkur Hannesson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar, og bætir við að Íslendingar séu duglegir í þessu eins og öðru sem þeir taka sér fyrir hendur. Endurvinnslan hefur starfað frá árinu 1989 þegar sett voru lög um skilagjald á drykkjarvöruumbúðir, sem formlega heita Lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Aukningin nú er meiri en vanalega og segir Eiríkur að hefðbundin aukning sé um 1-2 prósent á ári. "Þetta er í samræmi við aukna neyslu drykkjanna, það er greinilega góðæri núna." Mest berst af plasti enda meira drukkið af gosi og öðrum drykkjum í plastumbúðum en í áldósum og glerflöskum. Glerflöskunum fer þó fjölgandi og rekur Eiríkur þá þróun til aukinnar drykkju bjórs í flöskum. Hann segist alls ekki gráta það að sífellt meira af umbúðum berist til endurvinnslu enda njóti fyrirtækið góðs af, það selji jú skrapið, eins og hann kallar það, til frekari vinnslu. Úr áldósunum eru unnar nýjar dósir, plastflöskurnar verða að þráðum sem notaðir eru í fataframleiðslu og glerið er mulið í jarðvegsfyllingu. Sjálfur er Eiríkur duglegur að skila umbúðum til endurvinnslu enda trúr slagorði fyrirtækisins, sem er Hreint og umbúðalaust umhverfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×