Erlent

Snjóhvít jörð í Madríd

Borgaryfirvöld í Madríd á Spáni lýstu yfir neyðarástandi í gærmorgun en þá vöknuðu borgarbúar við að þykk snjóalög lágu yfir borginni og var varað við mikilli hálku á helstu þjóðvegum til og frá Madríd. Reyndist 15 sentimetra jafnfallinn snjór hafa lagst yfir stór svæði í fyrrinótt en slíkt er sjaldgæft þó ekki sé það einsdæmi. Snjókoman olli talsverðum töfum á flugi til og frá höfuðborginni og eins urðu allt að klukkutíma tafir á lestarsamgöngum og kom það mörgum borgarbúum á leið til vinnu mjög illa. Enn fremur greip lögregla til þess ráðs að loka tímabundið vegum sem liggja hvað hæst í landinu vegna snjóþekju og bætti það ekki úr skák. Veðurfar sem þetta hefur orðið mun algengara hin síðari ár í landinu og er skemmst að minnast skyndilegrar snjókomu sem olli umferðaröngþveiti í Barcelona og nærliggjandi svæðum í júní á síðasta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×