Erlent

Flugi frestað vegna Bush

Þýska flugfélagið Lufthansa þurfti að fresta tugum ferða frá flugvellinum í Frankfurt í morgun vegna komu George Bush Bandaríkjaforseta til landsins. Af öryggisástæðum var brugðið á það ráð að draga úr flugi frá vellinum í að minnsta kosti klukkutíma en flugvél Bush lenti á flugvellinum rétt fyrir klukkan níu í morgun. Talsmaður Lufthansa sagði að tæplega 4700 farþegar í flugi innanlands og til útlanda hefðu orðið fyrir óþægindum vegna þessa, en George Bush hittir í dag Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands, þar sem þeir hyggjast reyna að bæta samskipti ríkjanna í kjölfar deilna um Íraksstríðið. Búist er við að til svipaðra ráðstafana verði gripið þegar Bush heldur frá Þýskalandi síðar í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×