Erlent

Gríðarlegt tjón vegna skjálftans

Að minnsta kosti 400 manns létust í snörpum jarðskjálfta í miðhluta Írans í nótt. Skjálftinn mældist sex komma fjórir á Richter og varð um miðja nótt, þannig að flestir íbúar voru í fastasvefni í rúmum sínum. Gríðarlegt tjón er af völdum skjálftans og meðal annars er talið að nokkur þorp og bæir hafi lagst í rúst. Sjónarvottar hafa til að mynda lýst því að um 90% af öllum húsum í um 1700 manna bæ, nálægt miðju skjálftans, hafi eyðilagst. Rigning hefur hamlað björgunaraðgerðum en jafnframt er afar kalt á þessu svæði sem liggur á miðhálendi Írans. Ríkisstjórn Írans hefur þegar sent flugvélar með hjálpargögn á svæðið og að sögn talsmanns Alþjóða Rauða krossins er ekki þörf á alþjóðlegri aðstoð, að minnsta kosti enn sem komið er. Aðeins er rúmlega ár síðan skjálftri af svipaðri stærðargráðu, aðeins öflugri þó eða 6,7 á Richter, lagði borgina Bam í rúst. Þá létust um 31 þúsund manns. Íran liggur á mótum nokkurra jarðskorpufleka og jarðskjálftar eru afar tíðir.
MYND/AP
MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×