Sport

Shaq alltaf í sigurliði frá 2000

Shaquille O’Neal var kannski ekki valinn besti leikmaður Stjörnuleiksins annað árið í röð en það þykir mörgum táknrænt um áhrif þessa frábæra miðherja. Austurdeildin vann Stjörnuleikinn gegn Vesturdeildinni í fyrsta sinn síðan 2001, en Shaq missti af þeim leik vegna meiðsla. Shaq fór frá Los Angeles Lakers til Miami í sumar og hefur verið í sigurliði í Stjörnuleiknum í síðustu fjórum leikjum sem hann hefur spilað, allar götur síðan 1998. Shaq missti af leikjunum 2001 og 2002 vegna meiðsla en var í sigurliði Vesturdeildarinnar 2000, 2003 og 2004. Besti maður leiksins í ár, Allen Iverson, sparaði heldur ekki hrósið og sagði að Shaquille væri sá besti frá upphafi. Líkt og oft áður stal Shaq sviðsljósinu með húmor sínum og skemmtilegri framkomu en auk þess skoraði hann 12 stig, tók 6 fráköst, stal 3 boltum og varði 3 skot. Í fyrra var hann valinn bestur eftir að hafa skorað 24 stig og tekið 11 fráköst í 136-132 sigri vestursins og árið á undan skoraði hann 19 stig í 155-145 sigri vestursins í tvíframlengdum leik. Shaq hefur alls verið 12 sinnum valinn í Stjörnuleikinn en hefur þrisvar dottið út vegna meiðsla. Í þeim níu sem hann hefur spilað hefur kappinn sex sinnum verið í sigurliði og skorað í þeim 17,6 stig og tekið 8,6 fráköst að meðaltali. Það er ekki nóg með að O´Neal hafi skilað sínu inni á vellinum heldur er hann örugglega einn allra skemmitlegasti náunginn á svæðinu enda alltaf tilbúinn að gantast og grínast. Shaq er ekki bara frábær leikmaður heldur líka sannur skemmtikraftur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×