Erlent

Ríflega 200 týndu lífi

Rúmlega tvö hundruð námaverkamenn fórust í mikilli gassprengingu í kínverskri kolanámu í fyrrakvöld. Kínversk stjórnvöld upplýstu hins vegar ekki um slysið fyrr er í gær en það varð í Liaoning-héraði í norðaustanverðu landinu. Ekki er vitað hvað olli sprengingunni sem varð á 250 metra ofan í námunni. Auk hinna látnu slösuðust tugir manna og í það minnsta þrettán eru enn fastir í jörðinni. Námuslys eru algeng í Kína en á síðasta ári létust ríflega sex þúsund manns við þessar aðstæður. Í nóvember síðastliðnum fórust 165 manns í námusprengingu í norðurhluta landsins. Mannskæðasta námuslys sögunnar varð hins vegar árið 1942 þegar 1.549 verkamenn týndu lífi í námuslysi á Mansjúríu, sem þá var hernumin af Japönum. Stjórnvöld í Kína hafa fyrirskipað rannsókn á slysinu og segjast leggja allt kapp á að bjarga þeim sem eftir eru í námunni. Talsmaður námufyrirtækisins sagðist aftur á móti vera of upptekinn til að ræða við fjölmiðla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×