Erlent

Nýtt illvígt afbrigði HIV veiru

Læknar í New York hafa fundið nýtt afbrigði af HIV-veirunni sem engin lyf vinna á. Þeir sem fá veiruna virðast veikjast mun fyrr af alnæmi en hinir sem smitast af hefðbundnum stofni. Ástæða er til að hafa áhyggjur af þessum tíðindum, segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. HIV-afbrigðið fannst í bandarískum karlmanni í síðustu viku og segja læknar sem rannsakað hafa manninn að það sé nánast ónæmt fyrir hefðbundnum alnæmislyfjum. Það sem veldur læknunum sérstökum áhyggjum er hversu skammur tími leið frá því að maðurinn smitaðist af veirunni þar til einkenni alnæmis tóku að koma fram. Yfirleitt tekur þetta ferli um áratug en hjá manninum komu einkennin fram strax eftir nokkra mánuði. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að þótt ekki megi álykta um of af einu tilfelli sýni þetta að fólk verði að gæta vel að sér hér eftir sem hingað til. Yfirleitt stökkbreytast veirur í fólki sem er þegar á lyfjum en Haraldur segir eftirtektarvert að maðurinn sem um ræðir hafi ekki verið í meðferð. Það bendir til að hann hafi fengið nýja afbrigðið annars staðar frá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×