Erlent

Vélað um völdin

Miklar þreifingar fara nú fram í Írak um samsetningu þingmeirihluta en endanleg úrslit kosninganna urðu ljós í fyrradag. Sameinuðum flokki sjía mistókst að ná hreinum meirihluta eins og honum hafði verið spáð og því verður hann að mynda bandalag með öðrum flokkum á stjórnlagaþinginu sem senn tekur til starfa. Þingið útnefnir forseta og varaforseta landsins, sem aftur skipa forsætisráðherra. Líklegast er talið að sjíar myndi meirihluta með Kúrdum, sem fengu fengu fjórðung atkvæða í kosningunum. Kúrdinn Jalal Talabani yrði þá forseti en sennilega tekur annað hvort Ibrahim Jaafari eða Ahmed Chalabi við forsætisráðherraembættinu. Jaafari hefur gegnt varaforsetaembættinu í bráðabirgðastjórninni en Chalabi var eftirlæti Bandaríkjamanna þar til hann féll í tímabundna ónáð í fyrra. Hann er illa þokkaður af íraskri alþýðu og því eru möguleikar Jaafaris taldir meiri. Uppreisnarmenn eyðilögðu olíuleiðslur nálægt Kirkuk í fyrrinótt og róstur voru í Bagdad, þar sem tveir lögreglumenn voru myrtir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×