Erlent

Segja kosningar í Írak sigur

Sigur er það orð sem vestrænir og írakskir stjórnmálamenn nota til að lýsa kosningunum í Írak í gær. Nú bíður nýrra leiðtoga það verk að byggja upp lýðræðislegt stjórnkerfi og koma í veg fyrir sundrung. Írakar veittu uppreisnar- og hryðjuverkamönnum ráðningu í gær þegar þeir létu hótanir sem vind um eyru þjóta og flykktust á kjörstaði þrátt fyrir hættuna á hryðjuverkum. Segja má að þeim hafi tekist það sem herliðinu hefur ekki tekist enn, að grafa undan hryðjuverkamönnunum. Alls er talið að um átta milljónir manna hafi greitt atkvæði í kosningunum í gær en það eru um sextíu prósent þeirra sem voru á kjörskrá og mun betri kjörsókn en búist var við. Þrátt fyrir þetta er talið víst að andspyrnunni linni ekki og að árásirnar verði jafnvel enn fleiri þar sem hryðjuverkamenn vilji leita hefnda og refsa þeim sem kusu. Stjórnmálaskýrendur segja einnig mikið velta á súnnítum sem virðast víða hafa sniðgengið kosningarnar. Vilji er þó til þess að hafa þá með í ráðum við gerð nýrrar stjórnarskrár og taka sumir stjórnmálaleiðtogar úr röðum þeirra vel í þá hugmynd. Naser Ayef al-Ani úr Íslamistaflokki Íraks segir að verði flokki súnnita boðið að koma að gerð stjórnarskrár skorist hann ekki undan því. Raunar þurfi þeir sem semja hana ekki endilega að vera fulltrúar á allsherjarþinginu. Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks og líkast til einn sigurvegara kosninganna, lýsti því yfir í dag að hann myndi gera allt sem hann gæti til að sameina Íraka af öllum trúar- og þjóðarbrotum. Þjóðverjar voru meðal þeirra sem harðastir voru í andstöðu sinni við stríðið í Írak. Þeim er nú mikið í mun að bæta samskiptin við Bandaríkin og virtist Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, á því í dag að kosningin gæfi tilefni til þess að ná víðtækri samvinnu um málefni Íraks. Hann sagði að skylda Þjóðverja gagnvart þjóðum heims og fjölþjóðahernum væri að tryggja öryggi í Írak. Þjóðir heims yrðu að vinna saman, hagsmunir þeirra færu saman hver svo sem stuðningurinn hefði verið við álitamálið um hvort rétt hefði verið að fara í stríð við Írak. Verkefnið fram undan væri að koma á lýðræði og stöðugleika í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×