Erlent

Hýsti ítalskan mafíósa

Dönsk kona er grunuð um að hafa í um vikutíma hýst ítalskan mafíuleiðtoga sem var handtekinn í Kaupmannahöfn í fyrradag. Maðurinn, sem er fimmtugur, á yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóm vegna morðtilræðis, bílasprenginga ásamt brotum á fíkniefna- og vopnalögum. Handtökuskipun var gefin út í október á síðasta ári og nýlega var slóð mannsins rakin til Norður-Jótlands í Danmörku. Lögreglumenn frá Róm hafa verið í Kaupmannahöfn frá því á mánudag vegna málsins sem lauk með umsátri við íbúð í Frederikshavn klukkan hálfsjö í gærkvöld að dönskum tíma. Ekki kom til átaka við handtökuna en dönsk kona og ítalskur karlmaður voru einnig leidd á lögreglustöðina vegna gruns um að hafa hýst mafíuleiðtogann í viku. Þeim var báðum sleppt að loknum yfirheyrslum. Mafíuleiðtoginn verður hins vegar yfirheyrður í dag og fari svo að hann hafni því að honum verði vísað frá Danmörku gæti liðið nokkur tími þar til hann hefur afplánun dóms á Ítalíu. Dagblaðið Politiken greinir frá því í dag að annar félagi í ítölsku mafíunni hafi setið í dönsku fangesli í tvö ár rétt eftir 1990 áður en hann hóf að afplána 34 ára dóm á Ítalíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×