Erlent

Danska verði eina opinbera málið

Danski þjóðarflokkurinn vill binda í lög að danska verði eina málið í opinberum gögnum, í stað þess að upplýsingar til íbúa verði á mörgum tungumálum. Samt eru tíu erlend tungumál notuð til að kynna málstað flokksins á heimsíðu hans. Opinber skjöl, veggspjöld, bæklingar, skilti, vinnureglur og samningar eiga einungis að vera á dönsku, samkvæmt tillögu Danska þjóðarflokssins, sem styður meirihlutasamstarf Venstre og Íhaldsflokksins. Einnig mega grunnskólakennarar bara tala dönsku til nemenda. Hugmyndin er að vernda málið og þrýsta á innflytjendur að læra og tala dönsku. Danski þjóðarflokkurinn er sem dæmi ósáttur við þá stefnu orkufyrirtækis í Kaupmannahöfn, að hafa látið útbúa bækling á arabísku. En hvernig stendur þá á því að heimasíðan danskfolkeparti.dk inniheldur upplýsingar um flokkinn á ensku, spænsku, þýsku, frönsku, rússnesku, ítölsku, sænsku, arabísku, tyrknesku og hebresku? Ráðherra innflytjendamála, Peter Skaarup úr Danska þjóðarflokknum, sagði í samtali við danska ríkissjónvarpið í morgun að það væri gert til þess að fólk í útlöndum gæti fylgst með og sem dæmi leituðu margir erlendir blaðamenn eftir upplýsingum um flokkinn. Hann líkti þessu við ferðaskrifstofu sem setur upplýsingar fram á mörgum tungumálum til að ná til sinna viðskiptavina. Í tilfelli innflytjenda í Danmörku væru það hins vegar svik við fólkið að tala annað en dönsku, öðruvísi lærði það ekki málið. Þingkosningar verða 8. febrúar og samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum, sem nú eru gerðar daglega, heldur stjórnin velli. Venstre, flokkur forsætisráðherrans Anders Foghs Rasmussens, tekur eitt prósent af aðalkeppinautnum Sósíaldemókrötunum, frá því í gær. Könnunin var reyndar gerð fyrir kappræður leiðtoga flokkanna í Brøndby-höllinni í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Þar varpaði Rasmussen fram hugmynd um að 18 og 19 ára innflytjendur fengju ekki lengur bætur, aðeins boð um menntun. Mogens Lykketoft sósíaldemkrati gagnrýndi stjórnina á móti fyrir að hafa skorið niður í danska menntakerfinu. Fjölmiðlar segja fótboltatemmningu hafa verið í höllinni í gær þar sem heyra hafi mátt frammíköll á borð við bóndarass og grenjuskjóða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×