Innlent

Borgarráð hunsar ráð fræðsluráðs

Borgarráð Reykjavíkur hefur ákveðið að ekki þurfi fjárveitingu til endurskipulagningu grunnskólastarfs þrátt fyrir tilmæli fræðsluráðs þess efnis. Fimmtíu milljónir verða hins vegar veittar grunnskólum borgarinnar vegna tapaðra skóladaga í verkfalli kennara - og eiga þeir fjármunir að renna beint til undirbúnings efstu bekkja fyrir samræmd próf og til þeirra sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Kristinn Breiðfjörð, varaformaður Skólastjórafélags Íslands, segir skólastjóra geta nýtt verkstjórnartímann, sem þeir hafi til umráða hjá kennurum, til endurskipulagningarinnar. Það komi þó niður á öðrum verkefnum innan skólans, til dæmis verði umhverfisfræðsla látin sitja á hakanum. Kennarafélag Reykjavíkur gagnrýnir borgarráð fyrir að fara ekki að tillögum fræðsluráðs um að greiða kennurum sérstaklega fyrir endurunnar kennsluáætlanir. Ólafur Loftsson formaður félagsins segir marga kennara þegar hafa sinnt þessu verkefni á þeirri forsendu að þeim yrði grieddur einn vinnudagur fyrir verkið. Ólafur spyr hvort ákvörðun Reykjavíkurborgar snúist um sparnað eða hvort tillaga ráðsins hafi einungis verið illa orðuð. Steinunn segir sparnað ekki hafa ráðið úrslitum. "Verið er að setja umtalsverða aukafjárveitingu í skólana. Aðalatriðið er að peningarnir nýtist í kennslu barnanna, því það eru jú börnin sem hafa misst kennslustundir og kennsludaga," segir Steinunn og ítrekar þannig að aukafjárveitingin eigi ekki að renna til kennara. Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, segir að óskað hafi verið eftir greinargerðum frá grunnskólum borgarinnar um hvernig þeir hyggist bæta nemendum upp tapaða skóladaga. Fjórir hafi svarað en skólarnir geri nú þegar ráð fyrir aukafjárveitingunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×