Innlent

Rjúpur seldar á uppsprengdu verði

Rjúpnaveiðimenn óttast að veiðibann verði sett á aftur vegna ofveiði. Rjúpur ganga nú kaupum og sölum á allt að fjögur þúsund krónur stykkið, þrátt fyrir sölubann. Það þýðir að fimm manna fjölskylda greiðir um tuttugu þúsund krónur fyrir kjötið í jólamatinn.

Rjúpnaveiðitímabilið í ár er ríflega hálfnað en því lýkur um næstu mánaðamót. Þrátt fyrir sölubann á rjúpum segja veiðimenn að eftirspurn eftir rjúpu sé síst minni nú en fyrir tveimur árum þegar að rjúpnaveiðibann var sett á. Í reglugerð umhverfisráðuneytisins um rjúpnaveiði er mælst til þess að hver veiðimaður skjóti ekki fleiri en tíu til fimmtán rjúpur á rjúpnaveiðitímabilinu og að heildarveiði á tímabilinu fari ekki yfir 70.000 rjúpur.

Sigurður Aðalsteinsson, hreindýra- og rjúpnaveiðimaður frá Jökuldal, segist ekki merkja neina hugafarsbreytingu hjá veiðimönnum þrátt fyrir tilmæli umhverfisráðherra um hóflega veiði. Hann telur að menn fari á veiðarnar með tiltölulega góðum huga en þegar menn komist í sæmilega veiði þá missi þeir sig alveg.

Veiðiþjónustan Fálkaklettur í Mývatnssveit selur aðgang að rjúpnalandi en verðið er fjögur þúsund og fimm hundruð krónur fyrir daginn. Gísli Sverrisson hjá Fálkakletti segir marga tilbúna að greiða veiðimönnum tvö þúsund krónur fyrir hverja rjúpu og þar yfir. Dæmi séu um að veiðimenn hafi falboðið rjúpuna á hærra verði eða fyrir allt að fjögur þúsund krónur stykkið. Gísli segir langt því frá að allir þeir fjögur til fimm þúsund veiðimenn sem ganga til rjúpna ætli að stilla veiðunum í hóf. Gísli segir að þúsund veiðimenn séu að veiða um fimmtíu rjúpur eða fleiri. Gísli óskaði eftir viðbrögðum frá umhverfisráðuneytinu um að minna menn á að stilla veiðunum í hóf, þannig að það takist að bjarga stofninum. Gísli óttast um stofninn á ákveðnum svæðinu. Gísli telur að þeir veiðimenn sem skjóti fimmtíu til hundrað rjúpir fylli ekki veiðiskýrlsur út á réttan hátt jafnvel þó sé leynd á skýrslunum. Gísli óttast að veiðibann verði sett á aftur næsta haust.

Sigurður Aðalsteinsson segir notkun öflugra veiðihunda að sumu leyti gagnrýnisverða. Það fari eftir því hvernig veiðimenn noti hundana. Margir nota þá eftir sportinu og er allt í lagi með það og, en svo eru aftur þessir magnveiðimenn sem að hafa verið að skjóta mikið af rjúpu, að þeir eru að nota hundana á allt annan hátt heldur en aðrir. Þeir eru að nota þá fyrst og fremst til þess að finna hana. Þeir geta hreinsað upp nánast heilu hlíðarnar með því að láta hundana finna fyrir sig rjúpuna og reka hana upp.

Fjögurra manna fjölskylda þarf 8-10 rjúpur í jólamatinn en þar sem stórfjölskyldan kemur saman á jólum þarf oft 20-30 rjúpur til að metta svanga jólaboðsgesti. Þeir sem ætla að kaupa rjúpu í ár geta því átt von á verulegum fjárútlátum því ofan á verðið sem þeir þurfa að greiða fyrir rjúpuna geta þeir átt von á sektum þar sem bæði er bannað að selja og kaupa rjúpu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×