Erlent

Femínistar fengju sjö prósent

Nýja femínistaframboðið í Svíþjóð, sem Gudrun Schyman og samherjur hennar hafa boðað, myndi fá um sjö af hundraði atkvæða ef þingkosningar færu fram nú. Slíkt fylgi myndi skila flokknum 24-27 þingsætum. Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar, sem gerðar voru eftir að tilkynnt var um framboðið á mánudaginn. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, sem viðhorfsrannsóknafyrirtækið Temo gerði og birtar eru í Dagens Nyheter, tæki nýja framboðið megnið af fylginu frá Vinstriflokknum, sem Schyman fór fyrir í tíu ár uns hún hrökklaðist frá vegna hneykslismála fyrir tveimur árum. Nær allir svarendur í könnuninni, sem tóku því líklega að kjósa nýja kvennalistann, koma úr hópi stuðningsmanna hinna vinstriflokkanna. Rúmlega fjórðungur kjósenda Vinstriflokksins er í þessum hópi, svo og 17 prósent fylgismanna sænska græningjaflokksins. Fimm af hundraði þeirra sem kusu Jafnaðarmannaflokkinn í síðustu kosningum segjast hneigjast til stuðnings við femínistaflokkinn. Að öllu jöfnu verður næst kosið til sænska þingsins í september 2006.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×