Erlent

Annan snupraði mannréttindanefnd

Kofi Annan snupraði Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna harkalega í dag og sagði að þröng eiginhagsmunaþjónkun aðildalandanna drægi úr trúverðugleika Sameinuðu þjóðanna í heild sinni. Miklir mannréttindabrjótar svo sem Súdan og Zimbabwe sitja í nefndinni og koma í veg fyrir að þeirra eigin brot séu fordæmd. Mannréttindanefndinni er ætlað að fylgjast með því að mannréttindi séu virt um heim allan og vekja athygli á því þegar ríkisstjórnir brjóta á réttindum fólks. Í nefndinni sitja hins vegar fulltrúar ríkisstjórna sem eru þekktar fyrir ítrekuð og stórkostleg mannréttindabrot á eigin þegnum, svo sem Súdan, Zimbabwe, Kína, Rússland og Sádi-Arabía. Vera þessara landa í nefndinni kemur í veg fyrir að mannréttindabrot þeirra séu opinberlega fordæmd af Sameinuðu þjóðunum. Sem dæmi má nefna að Mannréttindanefndin lét hjá líða að fordæma voðaverk Súdanstjórnar í Darfur-héraði í fyrra þrátt fyrir að fyrir nefndinni lægju sönnunargögn um málið. Fulltrúi Súdans var í staðinn endurkjörinn inn í Mannréttindanefndina. Þá vakti það einnig hörð viðbrögð mannréttindasamtaka árið 2003 þegar Líbíustjórn fór með forsæti í nefndinni enda hefur stjórn Khaddafis verið þekkt fyrir ýmislegt annað en virðingu fyrir mannréttindum. Útlagaríki sem standa einangruð í alþjóðasamfélaginu, eins og t.d. Norður-Kórea og Kúba, eru hins vegar harkalega fordæmd af nefndinni á hverju ári. Annan vill nú umbylta þessu fyrirkomulagi og skipa nýja, minni fastanefnd með fulltrúum landa sem samstaða er um að virði mannréttindi innan eigin landamæra. Aðeins þannig geti þessi nefnd orðið að einhverju yfirvaldi og álit hennar skipt máli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×