Erlent

Drepin af ásettu ráði

Lögmenn fjölskyldu kanadísks ljósmyndara, sem lést í haldi yfirvalda í Íran fyrir tveimur árum, fullyrða að ljósmyndarinn, Zahra Kazemi að nafni, hafi verið drepinn af ásettu ráði. Zahra var handtekin fyrir utan fangelsi í Tehran, höfuðborg Írans, þar sem hún var að taka myndir en margir fanganna sem þar sitja inni hafa unnið sér það eitt til saka að vera andvígir stefnu stjórnvalda í landinu. Banamein Zöhru var höfuðhögg. Íranskir dómstólar komust að þeirri niðurstöðu fyrr á árinu að andlát hennar hafi verið slys en hafa þráast við að taka málið upp að nýju, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þess efnis frá lögmönnum fjölskyldu Zöhru. Einn lögmannanna fjögurra er Shirin Ebadi sem fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2003.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×