Erlent

Landamæradeila Kanada og Danmerkur

Kanadamenn og Danir eru að lenda í landamæradeilu um Hans-eyju, norðaustur af Grænlandi. Deilan tók nýja stefnu í síðustu viku eftir að Bill Graham, varnarmálaráðherra Kanada, steig þar á land og hermenn reistu kanadíska fánann, en danski fáninn var þar fyrir. Ekki fer sögum af því hvort danski fáninn, sem sjóliðar af danska eftirlitsskipinu Vedderen reistu þar árið 2002, var tekinn niður, né heldur hvort Kanadamennirnir hrófluðu við koníaksflöskunni sem Tom Höyem, þáverandi Grænlandsmálaráðherra Dana, gróf þar í jörðu. Með flöskunni fylgdu þau skilaboð að Kanadamenn væru velkomnir í heimsókn til þessarar dönsku eyjar. Þótt deilan fari nú harðnandi, og stjórnvöld í báðum löndum sjái fyrir sér að hún fari fyrir alþjóðlega dómstóla, er eyjan ekki nema rösklega einn ferkílómetri að stærð, yfirleitt umlukt hafís og með öllu óbyggileg. Hún getur hins vegar haft áhrif á yfirráð yfir hafsvæðum eftir því hvoru landinu hún tilheyrir og svo er ekki útilokað að verðmæti séu í jörðu eða við eyna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×