Innlent

Veiða síðustu hrefnuna í dag

Í gær höfðu þrjátíu og átta hrefnur veiðst af þeim þrjátíu og níu sem heimilað var að veiða á þessari vertíð. Bræla var á öllum miðum í gær svo ekki var unnt að klára kvótann en hrefnuveiðibáturinn Halldór Sigurðsson frá Ísafirði lýkur líklega vertíðinni í dag að sögn Gísla Víkingssonar sérfræðings hjá Hafrannsóknarstofnun. Gísli segir veiðarnar hafa gengið nokkurn veginn samkvæmt áætlun þótt veðurfar hafi verið ódælla en það á að sér að vera í júlí og ágúst. Enn fremur segir hann að niðurstöður úr fitumælingum ættu að liggja fyrir í október en mikil umræða hefur átt sér stað meðal hrefnuveiðimanna um að hrefnan sé óvenju mögur í ár sem bendir til þess að hún hafi ekki nægjanlegt æti á miðunum. Frumniðurstöður úr rannsóknum á fæðuvali hrefnunar ættu hins vegar að liggja fyrir í vor að sögn Gísla en nú hafa hundrað hrefnur veiðst af þeim tvö hundruð sem gert er ráð fyrir að felldar verði í þessu rannsóknarferli sem tekur nokkur ár til viðbótar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×