Sport

Tyson snýr aftur í júní

Mike Tyson boðaði í gær endurkomu sína í hringinn en ekki var minnst einu orði á mögulegan andstæðing. Tyson mun etja kappi, líklega við einhvern minni spámann boxheimsins, í Washington þann 20. júní næstkomandi. Tyson staðfesti þetta við blaðamenn þar sem hann var staddur á uppskeruhátíð ítalskra dægurlaga í San Rema. Hvaða erindi Tyson á þangað var látið liggja milli hluta. Tyson leyfði sér að sleppa af sér beislinu eilítið í samtalinu við blaðamenn og sagði hann meðal annars, í örvæntingarfullri tilraun til að fríska upp á almenningsálitið, að hann hefði setið saklaus í fangelsi í þrjú ár á sínum tíma og fór hann ekki fögrum orðum um dómskerfið í Bandaríkjunum. "Það var lygi sem kom mér í steininn og ég ber enga virðingu fyrir dómstólunum. Árlega þurfa hundruð af saklausu fólki að dúsa bak við lás og slá eftir lygasögur vitna," segir Tyson. Hann segist sjálfur hins vegar ekki vera neinn engill. "En ég er líka ekki bara einhver boxari. Ég er faðir, frændi og málari," bætti hann við og ekki ber á öðru en að Tyson sé byrjaður að vinna á sinni framabraut á sviði málverka og lista.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×