Sport

Heimsmet í hávaða slegið

Stuðningsmenn Liverpool slógu heimsmet í hávaða í gær, sunnudag, þegar liðið tapaði fyrir Chelsea í úrlsitaleik ensku deildarbikarkeppninnar í knattspyrnu. Það var strax eftir 42 sekúndna leik sem rúmlega 4 ára gamalt metið var slegið þegar Norðmaðurinn John Arne Riise skoraði og kom Liverpool yfir. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út og mældu starfsmenn á Þúsaldarleikvanginum í Cardiff í Wales, 130.7 desibila sterkan hávaða. Til samanburðar má geta að hávaðinn við hlið Fokker flugvélar í fullum gangi eru rúm 100 desibil. Gamla metið áttu stuðningsmenn ameríska fótboltaliðsins Denver Broncos sem fögnuðu í 128.74 desibila hávaða í október árið 2000. Mælingamenn á Þúsaldarleikvanginum í Cardiff mældu hávaðann á mismunandi stöðum á vellinum á meðan leikurinn stóð yfir í gær. Söngvar stuðningsmanna Liverpool til fyrirliðans Steven Gerrard mældu mesta hávaðann þegar litið er til söngva um einstaka leikmenn en eins og áður segir toppaði mælirinn þegar Riise hamraði tuðruna í netið í upphafi leiks. Ekki er vitað um samanburðartölur af Laugardalsvelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×