Innlent

Segir aðför hlægilega

Heilbrigðiseftirlitið á Akranesi kannaði í gær húsakynni fimm pólskra verkamanna sem starfa hjá fyrirtækinu Sputnikbátum og samþykkti það án athugasemda að sögn Gunnars Leifs Stefánssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins. "Enda er þetta fyrirtaks húsakostur," segir hann. Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélagsins, sagði í morgunþætti Talstöðvarinnar í fyrradag að hann hefði ekki séð húsakynnin nema að utan og hafi þá ekki litist á. Verkalýðsfélagið á staðnum hefur kært Sputnikbáta til sýslumanns fyrir að standa ólöglega að málum gangvart Pólverjunum fimm og hefjast yfirheyrslur hjá sýslumanni á mánudaginn og verða Pólverjarnir kallaðir til en einungis sem vitni. Ingólfur Árnason, einn af eigendum fyrirtækisins, segir að aðför Verkalýðsfélagsins að fyrirtækinu sé í raun hlægileg. "Við hefðum aldrei getað fundið þessa góðu verkamenn nema í gegnum starfsmannaleigu af þessu tagi," segir Ingólfur. Hann segir að fyrirtækið muni ráða mennina enda hafi þeir sýnt fram á ágæti sitt og að þeir uni hag sínum vel og því sé framganga Verkalýðsfélagsins ekki þessum verkamönnum í hag. Vilhjálmur segir að fyrirtækið hafi ekki látið á það reyna hvort hægt væri að finna slíka verkamenn hér á landi, allavega hefðu þeir ekki leitað til Verkalýðsfélagsins í þeim tilgangi. Gunnar Leifur segir það ekki rétt sem Vilhjálmur hafi haldið fram að fyrirtækið greiði 2,1 milljón króna fyrir verkamennina fimm heldur sé rétt upphæð 3,5 milljónir. Í gær var sjósettur fimmtán tonna fiskibátur sem fyrirtækið hefur framleitt og fögnuðu starfsmenn og yfirmenn við það tækifæri. Báturinn er útbúinn til línuveiða og hefur verið seldur til fyrirtækisins Eyrarberg í Grindavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×