Innlent

Sterk króna grefur undan útveginum

"Nákvæmar tölur höfum við ekki tekið saman en fyrir liggur að róðurinn er orðinn afar erfiður mörgum fyrirtækjum í sjávarútvegi," segir Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva. Staða skuldseigari fyrirtækja í sjávarútvegi hefur versnað til muna eftir áramótin og eru margar rækjuverksmiðjur sérstaklega viðkvæmar enda staða þeirra flestra bág fyrir. Samtök Arnars sem og önnur útflutningsfyrirtæki í landinu bíða nú tillagna svokallaðar Hágengisnefndar sem Árni Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, kom á fót til að meta stöðu hágengis á starfsumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja. Átti nefndin að skila niðurstöðum sínum í lok mars en tafir hafa orðið á vinnu nefndarinnar og ekki fyrirséð hvenær nefndin lýkur verkinu. Arnar segir stöðuna allt síðasta ár hafa verið erfiða en steininn hafi tekið úr eftir síðustu áramót þegar til komu frekari innlendar kostnaðarhækkanir á fyrirtækin á sama tíma og staða krónunnar hélt áfram að styrkjast. "Það sem hefur gerst er að í rækjuvinnslu hefur fyrirtækjum fækkað og þau sem eftir eru verulega dregið saman seglin. Bæði er að í þeim rekstri hafa skuldir verið miklar en ekki síður er að þau fyrirtæki hafa haft hvað minnsta framlegð af vörum sínum." Framlegð er það fé sem eftir er þegar búið er að greiða vinnulaun, rekstrar- og hráefniskostnað en sú upphæð hefur farið jafnt og þétt minnkandi hjá mörgum fyrirtækjum í útflutningi. Arnar gerir einnig athugasemdir við að verðbólga hafi ekki staðið í stað þrátt fyrir styrkingu krónunnar. "Búast hefði mátt við því að með sterkri krónu myndi verðbólga halda sér eða lækka jafnvel en sú hefur ekki verið raunin."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×