Erlent

Fjórðungur kjósenda óákveðinn

Bæði Gerhard Schröder kanslari og Angela Merkel, leiðtogi kristilegra demókrata, rufu í gær þá sterku hefð, sem viðgengist hefur í Þýskalandi, að flokkarnir láti eiga sig að stunda kosningabaráttu daginn fyrir kosningar. Allt bendir til þess að afar mjótt verði á munum í þingkosningunum, sem haldnar verða í dag. Samkvæmt skoðanakönnunum eru 25 prósent kjósenda hins vegar óákveðin, og þess vegna láta stjórnmálamennirnir einskis ófreistað að ná í sem stærstan hluta af þeirri köku fyrir sinn flokk. Bæði Schröder og Merkel héldu í gær til Norðurrínar-Vestfalíu, sem er fjölmennasta sambandsland Þýskalands. Schröder hélt tuttugu mínútna ræðu fyrir tíu þúsund manna sal í bænum Recklinghausen, þar sem hann kom inn á öll helstu baráttumál sín, ítrekaði andstöðu sína við innrás Bandaríkjanna í Írak og hét því að styrkja enn frekar tengsl Þýskalands við Frakkland og Rússland. Schröder varði einnig umbætur sínar í atvinnumálum og velferðarmálum, en gagnrýndi tillögur Merkels um að ganga enn lengra í umbótum í atvinnumálum og einfalda skattakerfið. Hásri röddu hvatti Schröder trygga stuðningsmenn Jafnaðarmannaflokksins til þess að taka óákveðna kjósendur með sér á kjörstað. "Hugsið um að taka afa og ömmu með ykkur," sagði hann. "En ekki nema þau ætli að kjósa SPD." Merkel útlistaði hugmyndir sínar um að búa til fleiri atvinnutækifæri og hraða efnahagsumbótum fyrir áheyrendum sínum í Bonn. Hún lagði áherslu á að fjöldi atvinnulausra hafi í valdatíð jafnaðarmanna náð fimm milljónum manna. Það sé í fyrsta sinn frá stríðslokum sem atvinnuleysið hafi orðið þetta mikið. Í dag nemi atvinnuleysið 11,4 prósentum. "Kjósið breytingar vegna þess að Þýskaland þarf á framtíð að halda," sagði hún. Síðustu skoðanakannanir benda til þess að kristilegir demókratar hafi enn vinninginn en jafnaðarmönnum hefur orðið vel ágengt á síðustu vikum við að afla sér fylgis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×