Innlent

Fimmti hver skilar auðu eða röngu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
menntamálaráðherra hefur áhyggjur af slökum árangri framhaldsskólanema í samræmdu stærðfræðiprófi síðasta vor.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur áhyggjur af slökum árangri framhaldsskólanema í samræmdu stærðfræðiprófi síðasta vor.

Einn af hverjum fimm framhaldskólanemendum sem tóku samræmt stúdentspróf í stærðfræði síðasta vor skilaði auðu eða kolröngum úrlausnum. Samræmd stúdentspróf í stærðfræði og ensku voru lögð fyrir framhaldsskólanemendur í fyrsta sinn síðastliðið vor en tvívegis áður hafði verið prófað í íslensku með þeim hætti.

Af þeim 653 nemendum sem þreyttu stærðfræðiprófið skiluðu 49 auðu og 99 fengu lægstu einkunn. Meðaleinkunnin í því fagi var 3,3. Árangurinn var nokkru betri í íslenskuprófinu en þar var meðaleinkunnin 4,9 og í enskuprófinu var hún 6,2.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir það mikið áhyggjuefni að einn af hverjum fimm nemendum skili auðu eða kolröngum svörum í stærðfræðiprófinu og að Námsgagnastofnun þurfi að fara gaumgæfilega yfir málið.

Nemendur þurfa aðeins að ljúka tveimur samræmdum prófum til þess að geta útskrifast. Ekki er gerð krafa um tiltekinn árangur heldur einungis að nemendur mæti í prófin og sitji við í eina klukkustund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×