Erlent

IRA segist hættur vopnaðri baráttu

Írski lýðveldisherinn, IRA, sem drap og limlesti þúsundir manna í 35 ára vopnaðri baráttu gegn breskum yfirráðum á Norður-Írlandi, lýsti því yfir í gær að hann væri hættur að beita ofbeldi sem pólitísku baráttutæki. Bæði írska og breska stjórnin, sem og ráðamenn víðar um heim, fögnuðu þessu sem mikilvægum áfanga í átt að varanlegum friði á Norður-Írlandi. Breski forsætisráðherrann Tony Blair sagði yfirlýsinguna "áfanga af fordæmislausri þýðingu" og írski forsætisráðherrann Bertie Ahern sagði að hún boðaði "endalok IRA sem skæruliðasamtaka". En stjórnmálamenn í héraði og sumir fréttaskýrendur vöruðu við því að lesa of mikið út úr þessari yfirlýsingu; IRA hefði áður reynst standa illa við gefin loforð, mörgum spurningum væri ósvarað og IRA-menn hygðust ekki leysa samtökin upp. En þrátt fyrir þessa fyrirvara þykir yfirlýsingin mikill áfangi frá því samtökin lýstu yfir vopnahléi árið 1997. Í yfirlýsingu IRA, sem var dreift á DVD-formi á netinu, segir að öllum leynilegum hópum samtakanna hefði verið fyrirskipað að losa sig við vopn sín og hætta öllum aðgerðum, frá kl. 16 að staðartíma í gær að telja. "Forysta (samtakanna) hefur formlega fyrirskipað að hinni vopnuðu baráttu skuli hætt," segir þar, en yfirlýsinguna les Seanna Walsh, sá IRA-maður sem lengst hefur setið í fangelsi eða í 21 ár. "Öllum sjálfboðaliðum hefur verið sagt að leggja aðeins pólitískum og lýðræðislegum verkefnum lið og eingöngu með friðsamlegum aðferðum. Sjálfboðaliðar eiga ekki að taka þátt í neinum öðrum aðgerðum," segir í yfirlýsingunni, sem beint er til hinna á að giska 500 til 1000 meðlima samtakanna. IRA-forustan skorar í yfirlýsingunni á Breta og hinn bretlandsholla meirihluta mótmælenda á Norður-Írlandi að viðurkenna þetta útspil hennar sem fullnægjandi til að viðræður um að koma á samstjórn beggja fylkinga Norður-Íra verði teknar upp að nýju. Slíkar viðræður voru meginmarkmið friðarsamninganna frá 1998, sem kenndir eru við föstudaginn langa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×