Erlent

Lúkasjenkó tekur Pólverja fyrir

Viðleitni Pólverja til að ýta undir lýðræði í nágrannaríkinu Hvíta-Rússlandi hafa framkallað æ harðari viðbrögð af hálfu stjórnvalda í sovétlýðveldinu fyrrverandi. Þessi núningur náði nýju hámarki í gær er Pólverjar kölluðu sendiherra sinn heim frá hvít-rússnesku höfuðborginni Minsk. "Við kölluðum sendiherra okkar í Minsk heim til skrafs og ráðagerða og hann mun ekki snúa aftur fyrr en rætist úr ástandinu og kúguninni linnir," tjáði pólski utanríkisráðherrann Adam Rotfeld blaðamönnum í Varsjá. Daginn áður höfðu hvít-rússnesk yfirvöld handtekið oddvita pólska minnihlutans í Hvíta-Rússlandi, yfirheyrt og sakað um njósnir og fjárdrátt. Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands sem stýrt hefur landinu frá árinu 1994 og margir saka um einræðistilburði, vill fyrir alla muni hindra að stjórnarandstöðuöflum í landi hans takist að mynda ámóta öfluga hreyfingu og nýlega gerðist bæði í Úkraínu og Georgíu, en í báðum þessum fyrrverandi sovétlýðveldum komust til valda umbótasinnar hliðhollir nánum tengslum við Vesturlönd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×