Erlent

Ekki streita sem veldur magasári

Tveir ástralskir læknar fá Nóbelsverðlaunin í læknisfræði í ár fyrir uppgötvun sem hefur gjörbylt lífi milljóna manna. Þið sem vinnið mikið og haldið að þið séuð að fá magasár af streitu, getið andað léttar. Það er ekki streita sem veldur magasári heldur sýkill. Þetta uppgötvuðu tveir ástralskir læknar og hljóta fyrir það Nóbelsverðlaunin í ár. Barry Marshall og Robin Warren gerðu þessa uppgötvun árið 1982 en það tók áratug að vinna og taka í notkun lyf til að vinna bug á helicobacter pylori sýklinum. Sigurður Guðmundsson, landlæknir, segir þetta tvímælalítið vera eina af mestu uppgötvunum í klínískri læknisfræði á undanförnum áratugum. Uppgötvunin hefur haft veruleg áhrif á líf, heilsu og æviskeið milljóna manna um allan heim. Um það bil áttundi hver Íslendingur þjáðist af magsári áður en Marshall og Warren komu til sögunnar. Stór hluti þjóðarinnar var því krónískt veikur. Sú tíð er liðin. Bjarni Þjóðleifsson, yfirlæknir, segir að fram að uppgötvuninni hafi verið talið að um lífstílssjúkdóm og stress væri að ræða. Ekkert slíkt sé orsök sjúkdómsins, núna sé þetta sýkingarsjúkdómur sem sé eytt með vikukúr og þá sé fólk læknað fyrir lífstíð. Marshall og Warren mættu mótlæti þegar þeir komu fyrst fram með tilgátu sína og fóru óvenjulegar leiðir til að sanna hana. Kollegar Marshalls trúðu honum ekki til að byrja með og þá fór hann út í þá sérstöku rannsóknaraðferð að hann gleypti stóran skammt af bakteríum sjálfur og fékk öll einkenni sem búast máttti við. Það var kornið sem fyllti mælinn til að sýna kollegum hans að hann væri að segja satt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×