Erlent

Ruddust í gegnum girðingar

Hundruð Afríkubúa brutust í gegnum margra metra háar gaddavírsgirðingar á landamærum Marokkós og spænska landsvæðisins Melilla í morgun, í von um að komast ólöglega til Spánar. Um þrjú hundruð manns tókst ætlunarverkið, en margir voru sárir eftir. Spænska lögreglan telur að alls hafi um 700 manns tekið þátt í áhlaupinu. Fyrst þurfti að komast yfir þriggja metra háa gaddavírsgirðingu og svo aðra sem er tvöfalt hærri. Um 300 manns komust í gegn þegar girðingarnar létu undan þunga fólksins og var þeim skipað um borð í rútur sem fluttu þá í yfirfullar flóttamannabúðir. Þetta er ekki einstakt tilfelli, svona hópáhlaupum hefur fjölgað undanfarnar vikur. Fimm létu lífið þegar 300 manns reyndu að komast inn í spænsku borgina Ceuta sem er einnig sunnan við Gíbraltarsundið aðfaranótt fimmtudagsins og virðist sem marokkóskir landamæraverðir hafi skotið þá. Fólkið kemur flest frá fátækustu löndum Afríku sunnan Sahara og lítur á spænsku borgirnar sem fyrsta áfangann á leiðinni til Spánar þar sem flestir sem komast yfir fá á endanum landvistarleyfi eða tækifæri til að komast yfir til Spánar. Sumir eru sendir þangað á meðan unnið er í þeirra málum og þá láta margir sig hverfa á meðan og hefja nýtt líf í landinu. Bæði spænsk og marokkósk yfirvöld reyna nú að stemma stigu við þessu og hafa stóraukið gæslu á landamærunum og hækkað girðingarnar, en allt kemur fyrir ekki. Löngun fólksins og þrá eftir betra lífi er einfaldlega öllu yfirsterkari. Alls hafa um tólf þúsund manns reynt að komast inn í Melilla á árinu og er ekkert útlit fyrir að dragi úr straumnum í nánustu framtíð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×