Erlent

Mandela leiðtogi heimsins

Nelson Mandela fékk flest atkvæði í könnun BBC á því hverjir ættu að sitja í „heimsríkisstjórninni“, ef slík stjórn væri sett á laggirnar. Fimmtán þúsund manns tóku þátt í könnuninni þar sem fólk var beðið um að velja ellefu einstaklinga af hundrað manna lista sem það myndi vilja sjá í stjórninni. Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fékk næst flest atkvæði og þriðji var trúarleiðtoginn Dalai Lama. Engin kona varð á meðal ellefu efstu en sú sem fékk flest atkvæði var Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Búrma, en það dugði henni aðeins í þrettánda sætið. Næst á eftir henni í hópi kvennanna varð Hillary Clinton sem var í sextánda sæti. Meira en þriðjungur stjórnarinnar er skipaður milljarðamæringum úr viðskiptalífinu því þeir eiga hvorki fleiri né færri en fjóra fulltrúa af ellefu. Þetta eru Bill Gates, forstjóri Microsoft, Richard Branson, eigandi Virgin, Steve Jobs, forstjóri Apple, og loks kaupsýslumaðurinn og heimspekingurinn George Soros. Af öðrum sem „kosnir“ voru í heimsríkisstjórnina má nefna Desmond Tutu erkibiskup og Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Stjórnin lítur annars svona út: 1 - Nelson Mandela 2 - Bill Clinton3 - Dalai Lama4 - Noam Chomsky 5 - Alan Greenspan 6 - Bill Gates7 - Steve Jobs8 - Desmond Tutu9 - Richard Branson10 - George Soros11 - Kofi Annan Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, var einu sæti frá því að ná inn í stjórnina en George Bush Bandaríkjaforseti var hins vegar töluvert frá því, í fertugasta og þriðja sæti. Einn erkióvina hans, Fídel Kastró, var sjö sætum ofar en Bush í þrítugasta og sjötta sæti. Í flokki tónlistarmanna varð Bono, söngvari U2, efstur í fjórtánda sæti og af íþróttamönnum varð knattspyrnugoðið Pele hlutskarpast í tuttugasta og fimmta sæti. Þá má nefna það að fólk virðist frekar vilja að Osama bin Laden sitji í heimsríkisstjórninni en knattspyrnumaðurinn David Beckham því hryðjuverkaleiðtoginn varð í sjötugasta sæti, eða tveimur sætum ofar en Beckham.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×