Innlent

Greiðir 27 milljarða fyrir flutningsvirkin

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets (í forgrunni), segir einu gilda hvort orkufyrirtæki gerist hluthafar í fyrirtækinu eða leigi út flutningsvirki sín.
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets (í forgrunni), segir einu gilda hvort orkufyrirtæki gerist hluthafar í fyrirtækinu eða leigi út flutningsvirki sín.
Gengið var frá kaupum Landsnets hf. á flutningsvirkjum Landsvirkjunar, Orkubús Vest­fjarða og Rafmagnsveitna ríkisins með samningi sem undirritaður var í gær.

Samtals greiðir Landsnet um 26,8 milljarða króna fyrir flutningsvirkin í formi hlutabréfa og skuldabréfa.

Orkuveita Reykjavíkur og Hita­­veita Suðurnesja kusu fremur að leigja fyrirtækinu flutningskerfi sín. Landsvirkjun á því 69,44 prósent í Landsneti, RARIK 24,15 prósent og Orkubú Vestfjarða 6,41 prósent.

Þórður Guðmundsson, for­stjóri Lands­nets, segir engu breyta hvort orku­fyrir­tæki kaupi sig inn í Landsnet eða leigi því flutn­ings­virki.

"Flutningsvirkin eru öll háð sér­leyfis­starf­semi og skammtaður tekjurammi frá Orku­stofnun. Þess vegna sitja þeir sem ákveða að leigja alveg við sama borð og hin­ir hvað varðar arð af eign­um sín­um." Hann segir fulla sátt um fram­kvæmd­ina alla.

"Lögin gera ráð fyrir því að fyrir­tækin geti valið og gagn­vart Lands­neti breyt­ir þetta engu. Við för­um eftir sem áður með svo­kall­aða kerfis­stjórn­un eign­anna."

Þórður segist sjá fram á aukna samkeppni á raforkumarkaði eftir áramót, en þá geta landsmenn allir í fyrsta sinn valið sér raforkusala, hvort sem er til heimilisnotkunar eða at­vinnu­rekstrar, óháð bú­setu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×