Erlent

Annan hvetur til efnda á loforðum

Kofi Annan, framkvæmdstjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti í dag þær þjóðir sem lofuðu að aðstoða við uppbyggingu í Suður-Súdan að standa við heit sín, en Anna lauk þriggja daga heimsókn sinni til Súdans með því að kynna sér ástandið í suðurhluta landsins. Þar voru undirritaðir friðarsamningar fyrr á árinu eftir rúmlega tveggja áratuga borgarastyrjöld milli kristinna í suðri og íslamskra stjórnvalda í Kartúm í norðri, en alls er talið að 1,5 milljónir manna hafi látist og fjórar milljónir hafi þurft að yfirgefa heimili sín vegna hennar. Annan lofaði John Garang, fyrrverandi leiðtoga uppreisnarmanna, að Sameinuðu þjóðirnar myndu hjálpa til við að framfylgja friðarsamkomulaginu en það felur m.a. í sér að sunnanmenn fái nokkra sjálfstjórn. Hjálparstarfsmenn í Suður-Súdan segja hungursneyð vofa yfir á svæðinu þar sem ekki hafi verið staðið við loforð um mataraðstoð, en fjölmargar þjóðir lofuðu samtals 300 milljörðum króna í aðstoð á ráðstefnu um framtíð Súdans sem fram fór í Ósló í síðasta mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×