Innlent

Jólastemmning á Akureyri

Þótt nóvember sé ekki nema rétt hálfnaður, eru sumir Akureyringar komnir í jólaskap svo um munar. Bæjarstarfsmenn eru byrjaðir að skreyta miðbæinn og einstaka skreytingar eru komnar við íbúðarhús.

Ein umfangsmesta og tígulegasta jólaskreytingin á Akureyri ár hvert er skreytingin við heimili Guðnýjar Jónsdóttur og Ragnars Sverrissonar, kaupmanns í JMJ. Alls eru 50 jólaseríur í jólaskreytingunni í ár og samanlagt eru þær hátt í kílómetri að lengd. Nánast öll tré í garði þeirra hjóna eru ljósum prýdd og er hver einasta pera vandlega hnýtt við trjágreinarnar. Ljósunum fjölgar eftir því sem trén vaxa en í ár eru 2000 perur í skreytingunni.

Jólaskreytingahefð fjölskyldunnar í Áshlíð 11 nær 15 ár aftur í tímann. Fyrstu árin dugði að nota lítinn eldhúskoll til að koma jólaseríunum upp í efstu trjátoppana en í ár notast þau við stórvirk vinnutæki. Ragnar segir að þau noti körfulyftur eins og málarar og við hærri trén sé notaður kranabíll.

Öllum seríunum fylgir straumbreytir og lét Ragnar smíða 20 vatnshelda kassa undir þá og dreifast þeir um lóðina. Aðspurður hversu langan tíma taki að skapa þessa jólaveröld segir Ragnar að í ár hafi þetta tekið þrjá daga, en unnið hafi verið frá því snemma á morgnana og langt fram á kvöld.

Áshlíðin á Akureyri er ekki í alfararleið en eftir að skreytingin er komin upp eykst umferðarþungi um götuna til muna. Stór hluti bæjarbúa gerir sér ferð að heimili Ragnars og Guðnýjar til þess að berja dýrðina augum og eru dæmi um að þangað komi rútur með heilu leikskóladeildunum.

Aðspurður hvort hann hafi reiknað út hvað hann þurfi að greiða Norðurorku fyrir lýsinguna neitar Ragnar því og segir þetta ekki snúast um peninga heldur gleði og gaman. Hann segist aðspurður enn ekki hafa fengið jólakort frá Norðurorku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×