Erlent

Deildar meiningar um mannfall

Sjónarvottar telja að allt að 745 manns hafi látið lífið í átökum við stjórnarher Úsbekistans um helgina. Formælendur ríkisstjórnarinnar segja hins vegar að mannfallið hafi verið mun minna. Allt var með kyrrum kjörum í borginni Andijan í austurhluta Úsbekistans í gær en þar brutust út mikil mótmæli á föstudaginn sem enduðu með átökum við stjórnarhermenn. Í gær sagði Nigara Khidoyatova, leiðtogi eins stjórnarandstöðuflokksins, að allt benti til að hermennirnir hefðu síðustu daga myrt 745 saklausa borgara í Andijan og í nágrannaborginni Pakhtabad. Fólk úr hópi þeirra ríflega 500 flóttamanna sem komust til Kirgisistan segir svipaða sögu. Það kveðst hafa veifað hvítum dulum og hrópað að það væri vopnlaust en engu að síður var skotið á það. Fólkið hafnar því algerlega að íslamskir öfgamenn hafi staðið fyrir mótmælunum heldur hafi það aðeins viljað knýja á um efnahags- og lýðræðisumbætur. Sjónarvottar sögðu í samtölum við fréttaritara BBC að hermenn hefðu fjarlægt lík barna og kvenna en skilið lík karla eftir á vettvangi til að breiða yfir dauðsföll saklausra borgara. Islam Karimov, forseti Úsbekistans, og undirmenn hans vísa ásökunum stjórnarandstöðunnar á bug og segja að aðeins 169 manns hafi fallið. "Hersveitir okkar skutu einungis á hryðjuverkamenn," sagði Rashid Kadyrov, formælandi ríkisstjórnarinnar, við blaðamenn í gær. Hann sagði auk þess að mannfall óbreyttra borgara væri sök hryðjuverkamannanna sem væru flestir öfgasinnaðir múslimar og mannfallsáætlanir stjórnarandstæðinga væru þvættingur sem villa ættu um fyrir erlendum fréttamönnum. Yfirvöld í Moskvu hafa tekið undir með Karimov og sagt að ofbeldið væri heittrúuðum múslimum að kenna. Ekki var von á öðru enda hafa þau iðulega afgreitt þjóðfrelsisbaráttu Tsjetsjena sem verk íslamskra öfgamanna. Bretar hafa hins vegar fordæmt aðgerðir stjórnvalda í Taskent svo og Bandaríkjamenn þótt margir telji það gert með hálfum hug. 37 mótmælendur voru handteknir í Lundúnum í gær en þeir höfðu slett málningu á úsbeska sendiráðið í borginni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×