Innlent

Allt á suðupunkti við Kárahnjúka

Prestsetrasjóður hefur afturkallað leyfi fyrir tjaldbúðum mótmælenda við Kárahnjúka. Þrír voru handteknir í nótt og eru þeir nú í yfirheyrslum. Útlendingastofnun getur ekki vísað fólkinu úr landi eins og sýslumannsembættið á Seyðisfirði fór fram á að yrði kannað. Prestsetursjóður hefur afturkallað leyfi mótmælenda við Kárahnjúka til að hafa tjaldbúðir þar sem þær eru en sjóðurinn hefur yfirrráð með landinu á þeim slóðum. Mótmælendurnir fá frest til hádegis á morgun til að rýma búðirnar. Helgi Jensson hjá sýslumannsembættinu á Seyðisfirði segir að þetta hafi verið gert að beiðni embættisins þar sem mótmælendur hafi farið langt yfir öll velsæmismörk. Þeir hafi fengið leyfið á þeim forsendum að mótmælin yrðu friðsöm. Helgi segir þá ekki geta tjaldað annars staðar á hálendinu án leyfis landeigenda. Þrír Bretar, tveir menn og ein kona, voru handtekinn á Kárahnjúkum í nótt og flutt í fangageymslur. Þau eru enn í haldi og standa yfirheyrslur yfir þeim nú. Þau tóku þátt í átökum við lögreglu inni á bannsvæði við Kárahnjúkavirkjun. Annar mannanna, sem er Skoti, var handtekinn í tengslum við mótmæli þegar G8 fundurinn var haldinn í Skotlandi en hann hefur líka gerst sekur um að brjótast inn á svæði hersins þar í landi. Útlendingastofnun kannaði að beiðini sýslumannsembættisins á Seyðisfirði hvort hægt væri að vísa fólkinu úr landi. Svo er ekki þar sem það er íbúar innan evrópska efnahagssvæðisins. Mótmælendur voru ekki sáttir við aðgerðir lögreglu í morgun. Einn þeirra, Martin, sagði lögreglumennina hafa verið mjög ógnandi, ólíkt þeim vingjarnlegheitum sem þeir hafi sýnt síðast. „Þeir sögðu bílstjórunum að setja bílana í gang og ógnuðu fólki,“ segir Martin. Seinni partinn í dag kom í ljós að vörubíll eins verktakans hefur verið skemmdur, líklega með grjótkasti. Bíllinn var innan girðingar en talið er að verknaðurinn hafi verið framinn í fyrrinótt. Þá fundust tæki og tól til fíkniefnaneyslu í einu tjaldinu í búðunum í dag með hjálp leitarhunds.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×