Erlent

Morðingi van Gogh dæmdur

Dómstóll í Amsterdam dæmdi í gær Mohammed Bouyeri, sem játaði á sig morðið á kvikmyndagerðarmanninum Theo van Gogh, í lífstíðarfangelsi - það er hámarksrefsingu. Hið hrottalega morð á van Gogh, sem var framið um hábjartan dag í miðborg Amsterdam í byrjun nóvember, olli mikilli reiði í Hollandi og jók áhyggjur af "heimaöldum" íslömskum öfgamönnum. Bouyeri, sem er 27 ára gamall hollenskur og marokkóskur ríkisborgari, viðhafði enga málsvörn í réttarhaldinu fyrr í þessum mánuði. Þá sagði hann reyndar að hann hafði óskað sér þess að deyja í skotbardaga við lögregluna, sem "píslarvottur" trúar sinnar. Bouyeri sakaði van Gogh um að hafa vanvirt íslam og sagðist fremja verknaðinn aftur ef honum byðist tækifæri til þess. Dómarinn sagði lífstíðardóm einu refsinguna sem við hæfi væri fyrir glæp sem ætlað var að grafa undan hollensku lýðræði og stjórnmálakerfi landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×