Erlent

Lögin opna fyrir íslensk föðurnöfn

Umdeild nafnalög voru samþykkt á danska þinginu í morgun. Lögin auðvelda útlendingum í landinu að taka upp dönsk eftirnöfn og opna fyrir íslensk föðurnöfn. Dönsku nafnalögin eru ekki bara fréttnæm fyrir Íslendinga því að þau eru samþykkt 17. júní og fela í sér endurupptöku gamallar íslenskrar hefðar, heldur koma þau einnig til með að einfalda málin fyrir Íslendinga, búsetta í Danmörku. Eingöngu Íslendingar sem búa tímabundið í Danmörku geta sótt um undanþágu frá núverandi nafnalögum svo íslenskt barn sem fæðist í Danmörku megi bera föðurnafn með endingunni „son“ eða „dóttir“. Poul Erik Ettrup Larsen meðhjálpari segir nauðsynlegt að sækja um að fá að halda íslensku nöfnunum af því þau séu ekki í samræmi við mannanafnareglur Dana. Hann segir sérreglur gilda fyrir Íslendinga og Færeyinga. Aðspurður hvað gerist ef Íslendingur búi lengi í Danmörku - hvort hann missi réttinn til að nota föðurnafnið á barnið - segir Larsen að barnið haldi að sjálfsögðu því eftirnafni sem það hafi fengið „En ef Íslendingar eða Færeyingar gerast danskir ríkisborgarar verða þeir að fara eftir dönsku mannanafnalögunum,“ segir Larsen. Nýju nafnalögin opna því fyrir íslensku föðurnöfnin, enda breytingin gerð til að aðlaga dönsku lögin að lögum annarra norrænna ríkja. Svo er bara að sjá hvort Danir fari að nota föðurnöfn eins og „Jensson“ eða „Jensdóttir“. Larsen kveðst ekki hafa trú á því. „Ég held þvert á móti að þeir færist enn lengra frá „son“ og „dóttir“,“ segir Larsen.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×