Innlent

Segir fjárfesta ekki hafa áhyggjur

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, segist vongóður um að ákærur efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra á hendur forstjóra, fyrrum forstjóra og fleirum, hafi engin áhrif á fjárfesta og samstarfsaðila fyrirtækisins erlendis. Hann var staddur í London í gær og fundaði vegna fyrirhugaðra kaupa Baugs á auknum hlut í verslanakeðjunni Somerfield Group. "Það er enginn áhyggjufullur í hópi fjárfesta," segir Hreinn. Hreinn segir fyrirtækið hafa verði í stöðu "meints brotaþola" og því væri í hæsta máta óeðlilegt af ákærurnar sem gefnar voru út á hendur sexmenningunum síðasta föstudag væru látin bitna á fyrirtækinu. Þá segir hann standa fyrri yfirlýsingar Baugs um stuðning við Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóra og ákærðu. Hreinn segir viðskiptafélaga Baugs og samstarfsaðila í útlöndum verða upplýsta nægilega um stöðu mála til að þeir treysti sér til að halda áfram samstarfi við fyrirtækið. "Í þessum ákærum er ekkert sem ætti að draga úr möguleikum fyrirtækisins til að standa við sínar skuldbindingar. Því eru menn alveg klárir á," segir Hreinn og telur ekki heldur að skuggi falli á hæfileika Jóns Ásgeirs til að stýra fyrirtækinu, enda hafi allir verið meðvitaðir um rannsókn efnahagsbrotadeildar og vitað að mögulega gætu komið fram ákærur. "Hér úti verð ég áþreifanlega var við að það virðist vera vaxandi skoðun manna að standa með Jóni Ásgeiri. Þeir hafa það mikið traust á honum í gegn um þau viðskipti sem þeir hafa átt við hann undanfarin tvö til þrjú ár og það er á þeim tíma sem fyrirtækið hefur byggst upp hérna erlendis. Menn sjá árangurinn og horfa á eigin reynslu af samskiptum við bæði Jón Ásgeir og fyrirtækið. Það er besti vitnisburðurinn sem fyrirtækið hefur," segir Hreinn. Hann segir alla áherslu vera lagða á það hjá fyrirtækinu að halda áfram sínu starfi eins og ekkert hafi í skorist. Hreinn segist ekkert umboð hafa til að segja til um hvort Jón Ásgeir muni gera opinberar ákærur á hendur honum sjálfum, eða öðrum tengdum fyrirtækinu, til að eyða mögulegri óvissu vegna þeirra og vísaði á Gest Jónsson lögmann Jóns Ásgeirs. Gestur sagði birtingu ákærunnar ekki standa til svo hann vissi. Jón H. Snorrason, saksóknari og yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, er sagður í fríi út vikuna að minnsta kosti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×