Erlent

Hugðust sprengja réttarsalinn

Lyad Allawi átti fótum fjör að launa þegar lýður lét skóm og grjóti rigna yfir hann í Najaf í gær.
Lyad Allawi átti fótum fjör að launa þegar lýður lét skóm og grjóti rigna yfir hann í Najaf í gær.

Íröksk yfirvöld skýrðu frá því í gær að þau hefðu flett ofan af samsæri uppreisnarmanna um að skjóta eldflaugum að dómssalnum þar sem réttað verður yfir Saddam Hussein í dag.

Í yfirlýsingu Mouwaffak al-Rubaie, þjóðaröryggisráðgjafa landsins, kemur fram að samtök sem kallast Herdeildir byltingarinnar 1920 hafi áformað árásirnar en leyniþjónustan hafi komist á snoðir um það. Ekkert kom fram um hversu margir hefðu verið handteknir. Þá var ráðist að Iyad Allawi, forsætisráðherra bráðabirgða-stjórnarinnar sem var við völd þar til í janúar á þessu ári, þar sem hann var við bænir í hinni ginnheilögu Ali-mosku í Najaf.

Sex tylftir manna köstuðu að honum grjóti og skóm en slíkt þykir mikil óvirðing í Mið-Austurlöndum. Allawi sagði eftir atburðinn í gær að augljóslega hefði átt að ráða hann af dögum eins og Abdul-Majid al-Khoei, hófsaman klerk sem myrtur var af æstum múg á sama stað í apríl 2003. Talið er að eldklerkurinn Muqtada al-Sadr hafi staðið fyrir þeirri árás en litlir kærleikar eru á milli þeirra Allawi eftir að sá síðarnefndi lét berja niður uppreisn al-Sadr í Najaf í ágúst í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×