Erlent

Enn frestur vegna stjórnarskrár

Enn hefur samninganefnd um nýja stjórnarskrá í Írak verið gefinn frestur til að komast að endanlegri niðurstöðu. Talsmaður írakska þingsins sagði í morgun að samninganefndinni yrði gefinn frestur til miðnættis, en ef niðurstaða næðist ekki fyrir þann tíma myndi stjórnarskráin eins og hún lítur út einfaldlega fara beint í þjóðaratkvæðagreiðslu þann fimmtánda október. Sjítar og Kúrdar hafa þegar náð samkomulagi um drög að nýrri stjórnarskrá, en súnnítar fella sig ekki við þau. Í gær átti að reyna til þrautar að ná samkomulagi við samningamenn súnníta, en engin niðurstaða fékkst. Einn úr þeirra röðum fullyrti reyndar að fulltrúar Sjíta hefðu ekki einu sinni mætt á boðaðan fund seint í gærkvöldi. Hundrað þúsund Írakar mótmæltu í dag stjórnarskrárdrögunum sem kynnt voru á írakska þinginu í vikunni. Stuðningsmenn harðlínu-sjítaklerksins Múkktada al-Sadrs voru þar fremstir í flokki, auk þess sem súnnítar létu á óánægju sinni bera. Mótmælendurnir voru líka að lýsa óánægju sinni með skort á þjónustu í Írak og sumir lýstu stuðningi við Saddam Hússein.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×