Erlent

Hryðjuverk eða samsæri?

Hryðjuverk eða samsæri leyniþjónusta er spurningin sem brennur á íbúum Líbanons í dag. Reiði og tortryggni ríkir vegna morðsins á fyrrverandi forsætisráðherra landsins. Ýmislegt bendir til þess að það hafi verið hryðjuverkamaður í sjálfsvígsför sem réð Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, bana í gær, að sögn innanríkisráðherra Líbanons. Talið er að um 300 kíló af sprengiefni hafi verið í bíl sem sprengdur var í loft upp rétt við bílalest forsætisráðherrans fyrrverandi. Íslamskir öfgamenn lýstu tilræðinu á hendur sér í gær en í dag þvoði al-Qaida hendur sínar af verknaðinum og sagði sýrlensku, líbönsku eða ísraelsku leyniþjónustuna að verki. Öfgamennirnir sögðu tengsl Hariri við Sádi-Arabíu ástæðuna en hann bjó þar um árabil og var enn ríkisborgari þess lands á forsætisráðherratímanum. Hariri hafði hins vegar amast við Sýrlendingum og veru hermanna þeirra í Líbanon, sem gæti hafa reitt þá til reiði. Ólíklegt þykir að innanlandsátök séu ástæðan þar sem stjórnmál í Líbanon hafa verið fremur friðsamleg eftir að borgarastyrjöldinni lauk þar árið 1990. Engu að síður eru yfirvöld á varðbergi og herinn í viðbragðsstöðu. Sorg og reiði settu mark sitt á daginn í dag. Ghazi Aridi, líbanskur þingmaður, sagði að líbönsk stjórnvöld bæru fulla ábyrgð á því sem gerst hefði í landinu, allt frá tilræðinu við Marwan Hamadeh ráðherra fyrir nokkrum mánuðum. Tilraunir hefðu verið gerðar til að takmarka frelsi og málfrelsi þjóðarinnar, lög og stjórnarskrá hefðu verið brotin, mannréttindabrot hefðu viðgengist og nú loks væri Hariri ráðinn af dögum. Spennan í landinu magnast en stefnt er að þingkosningum í vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×