Erlent

Vill láta myrða Chavez

Bandarísk stjórnvöld segjast ekki deila skoðunum með sjónvarpspredikaranum Pat Robertson sem stakk upp á því á dögunum að Hugo Chavez, forseti Venesúela, yrði ráðinn af dögum. Robertson er einn helsti leiðtogi strangtrúaðra kristinna Bandaríkjamanna og hefur fylkt þessum hópi að baki George W. Bush forseta. Í sjónvarpsþætti sínum fyrr í vikunni sagði Robertson að ódýrara væri að láta myrða Chavez en að hefja stríð til að losna við hann. Daginn eftir sagði Sean McCormack, talsmaður utanríkisráðuneytisins, að ummæli Robertson væru óviðeigandi og endurspegluðu ekki stefnu ríkisstjórnarinnar. Donald Rumsfeld landvarnaráðherra tók svo í svipaðan streng í gær. Hvorugur þessara manna sá hins vegar ástæðu til að fordæma ummælin. Stjórnvöld í Hvíta húsinu hafa lengi haft horn í síðu hins vinstri sinnaða Chavez sem aftur hefur sakað þau um að ætla að láta ráða sig af dögum. Fyrr á árinu hótaði hann að stöðva olíuútflutning til Bandaríkjanna ef Bush og hans menn gerðu tilraun til að steypa sér af stóli en átta prósent allrar olíu Bandaríkjamanna kemur frá Venesúela. Chavez hefur svarað Robertson fullum hálsi og líkt honum við hund sýktan af hundaæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×