Erlent

Sprauta maurasýru í tré

Maurar í regnskógum Suður-Ameríku nota eitur til að grisja þær plöntur sem þeir telja óhagstæðar búsetu sinni. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem greint er frá í vísindaritinu Nature. Vísindamenn vildu komast að því hvers vegna aðeins ein trjátegund, Duroia hirsutaþrífst í svonefndum djöflagörðum á sumum svæðum í regnskógum Amazon. Þeir töldu koma til greina að trén sjálf útrýmdu öðrum tegundum eða að maurar af tegundinni yrmelachista schumanni væru af einhverju ástæðum valdir að þessu. Í samanburðarrannsókn kom í ljós að þar sem maurarnir voru fjarverandi döfnuðu aðrar trjátegundir ágætlega og nánari athugun sýndi að maurarnir sprautuðu maurasýru í laufblöð annarra trjáa. Talið er að maurunum hugnist ofangreind trjátegund sérlega vel við búsgerð sína og því kjósa þeir að eitra fyrir öðrum trjám sem þrengt geta að eftirlætisviðnum þeirra. "Þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum maura nota maurasýru til þessara nota, vanalega beita þeir henni til að vara hvern annan við eða verja bústaði sína," sagði Deborah Gordon, prófessor við Stanford-háskóla og einn höfunda rannsóknarinnar, í samtali við vefútgáfu BBC.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×