Innlent

Segir 50 milljónum kastað á glæ

Snæbjörn Árnason segist ekki skilja hvernig Hafrannsóknarstofnun hafi efni á því að eyða 50 milljónum í að vernda 21 milljón króna aflaverðmæti.
Snæbjörn Árnason segist ekki skilja hvernig Hafrannsóknarstofnun hafi efni á því að eyða 50 milljónum í að vernda 21 milljón króna aflaverðmæti.

"Önnur eins vitleysa hefur ekki verið viðhöfð held ég frá því að Bakkabræður reyndu að bera ljósið inn í baðstofuna í trogi," segir Snæbjörn Árnason, rækjusjómaður á Bíldudal, um verkefni Hafrannsóknarstofnunar í Arnarfirði.

"Það eru að minnsta kosti 50 milljónir settar í þetta verkefni sem hefur það að markmiði að vernda rækjustofn en aflaverðmæti hans er aldrei meira 21 milljón. Þetta er greinilega ekki stofnun í neinu fjársvelti sem getur unnið svona," segir hann. "Þar fyrir utan eru engin líffræðileg eða fiskifræðileg rök fyrir þessari rannsókn sem virðist vera gæluverkefni sem skattborgarar fá að gjalda fyrir."

Verkefnið gengur út á það í meginatriðum að þorskinum í Arnarfirði er gefin loðna á vissum stöðum og þannig er reynt að hamla því að hann leiti innar í fjörðinn til að gæða sér á rækjunni sem þar er. Vignir Thoroddsen, fjármálastjóri Hafrannsóknarstofnunar, segist ekki getað tjáð sig um hversu miklum fjármunum hafi verið veitt í verkefnið en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 50 milljónir.

"En þessi rannsókn snýst ekki aðeins um það að vernda rækjustofninn svo það er ekki rétt að setja þetta upp svona," segir hann. Ekki náðist í Björn Björnsson hjá Hafrannsóknarstofnun en hann hefur umsjón með verkefninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×